Valitor logo

Tilkynning um breytingu á viðskiptaskilmálum söluaðila

Nýju skilmálarnir taka gildi 8. desember 2021

Valitor hf., kt. 500683-0589 („Valitor“) tilkynnir um breytingu á almennum viðskiptaskilmálum söluaðila.

Nýju skilmálarnir taka gildi 8. desember 2021 og falla þá eldri skilmálar úr gildi.
Viðskiptaskilmálar Valitor voru teknir til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að gera skilmálana aðgengilegri og gagnsærri fyrir söluaðila og skýra frekar réttindi og skyldur aðila. Þá var leitast við að veita söluaðilum auknar leiðbeiningar um hvernig þeir geta framkvæmt öruggar færslur.
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á viðskiptaskilmálunum. Einna helst má nefna eftirfarandi atriði:

 • Gerð er breyting á skilgreiningu frídaga og annarra stórhátíðardaga vegna Mastercard korta en uppgjör vegna Mastercard fer ekki fram á bandarískum hátíðisdögum.
 • Ákvæðum um framkvæmd 3D Secure og sannvottunar eru bætt við í sérstakan kafla um netviðskipti. Ákvæði varðandi framkvæmd færslna og ábyrgðar á þeim. Hér má nefna að söluaðili ber sjálfur ábyrgð á færslum sem ekki fara í sannvottun og einnig ber söluaðili ábyrgð á að allar upplýsingar sem sendar eru með 3D Secure séu réttar og ekki spilltar o.fl.
 • Áréttað er í skilmálum að ákveðnar aðstæður geta komið upp sem leiða til þess að 3D Secure búnaður virkar ekki (t.d. bilun í netsamskiptum, netárásir o.fl.). Ef slík atvik koma upp leitar Valitor allra sanngjarnra leiða til þess að lágmarka áhrif slíkra atvika á starfsemi söluaðila.
 • Í skilmálum er áréttað að í sumum tilfellum er ekki hægt að fara fram á 3D Secure sannvottun (t.d. vegna þess að kortaútgefandi korthafa er utan EES-svæðisins og styður ekki 3D Secure sannvottun). Í slíkum tilfellum heimila lög að undantekning sé gerð frá kröfu um sterka sannvottun (e. Out of Scope Exemption). Valitor mun reyna að afla 3D Secure sannvottunar á allar færslur en ef það er ekki hægt mun Valitor óska eftir heimild á kortafærslu án sannvottunar þannig að viðskipti geti farið fram.
 • Við skilmálanna bætist við ákvæði um MIT-greiðslur. Með MIT-greiðslum er átt við greiðslur sem söluaðili getur framkvæmt af eigin frumkvæði án beinnar aðkomu korthafa (Merchant Initiated Transactions). Dæmi um slíkar greiðslur eru boðgreiðslur, færslur fyrir viðbótarkostnaði eins og t.d. í ferðaþjónustu, eða þegar söluaðili nýtir sér bókunarþjónustu í tengslum við sölu á þjónustu. Um þessar færslur gilda sérstakar reglur kortasamtakanna.
 • Í skilmálum er áréttað að það er á ábyrgð söluaðila að hafa öll tilskilin leyfi og/eða skráningar fyrir starfsemi sinni í samræmi við gildandi löggjöf og reglur kortasamtakanna og söluaðili skal afhenda Valitor gögn og upplýsingar til staðfestingar á því ef Valitor óskar eftir því. Jafnframt heimilar söluaðili Valitor að hafa samband við leyfisveitenda til staðfestingar á þessu. Þá bætist einnig heimild fyrir Valitor að innheimta kostnað af söluaðila ef kostnaður fellur til vegna gagnaöflunar eða skráningar söluaðila hjá kortasamtökum (ef starfsemi söluaðila krefst skráningar t.d. sala á tóbaksvörum, svokölluðum „vape“ vörum, lyfsala o.fl.).
 • Áréttuð er sú regla að söluaðili skuli alltaf hafa til staðar gilda staðfestingu fyrir viðskiptum áður en hann afhendir vöru eða þjónustu eftir því sem við á. Ef söluaðili afhendir vöru eða þjónustu án gildrar staðfestingar ber söluaðili ábyrgð í slíkum tilfellum.
 • Ný ákvæði um endurgreiðslur bætast við skilamálana, m.a. um að allar endurgreiðslur sem söluaðili framkvæmir, eða eru á einhvern hátt framkvæmdar í gegnum búnað söluaðila, eru á ábyrgð söluaðila. Söluaðili skal því ekki framkvæma endurgreiðslu nema hafa gilda staðfestingu um að greiðsla hafi raunverulega verið tekin af korthafa (t.d. á þjónustuvef Valitor eða að slíkt hafi verið staðfest á annan hátt af Valitor).  Tengt þessu þá skal söluaðili afhenda Valitor staðfestingu á því að korthafi hafi farið fram á endurgreiðslu ef Valitor óskar eftir þeim upplýsingum.
 • Áréttað er í nýjum skilmálum að ef söluaðili breytir á einhvern hátt afgreiðslutæki/posa þ.m.t. tengir það við önnur tæki (t.d. smáforrit (app)) ber söluaðili alla ábyrgð á göllum sem kunna að koma fram, þ.m.t. öryggisrofi vegna afgreiðslubúnaðarins. Söluaðilar skulu fara varlega ef öppum er hlaðið niður á afgreiðslubúnað því að slík öpp geta innihaldið óværur (e. malware).
 • Ef söluaðili vill fá uppgjör vegna American Express korta næsta dag skal söluaðili senda inn bunka fyrir kl. 17:00.
 • Í nýjum skilmálum er áréttuð sú heimild Valitor að fresta greiðslu uppgjörs ef uppgjör dregst frá kortasamtökunum (t.d. vegna bilunar hjá þeim) eða af öðrum aðstæðum sem Valitor hefur ekki stjórn á (t.d. bilun hjá samstarfsaðila o.fl.). Valitor leitast alltaf við að uppgjör berist söluaðila eins fljótt og verða má í slíkum tilfellum.
 • Í skilmálum kemur fram að Valitor geti hvenær sem er gert breytingu á uppgjörstíðni og/eða dagsetningum útgreiðslu til söluaðila telji félagið fjárhags- og rekstrarstöðu söluaðila ófullnægjandi. Í nýjum skilmálum er áréttað að þetta eigi einnig við þegar niðurstaða áreiðanleikakönnunar leiðir á einhverjum tímapunkti í ljós aukna áhættu Valitor af viðskiptum við söluaðila.
 • Varðandi gjaldtöku og kostnað eru gerðar nokkrar breytingar. Í skilmálum kemur fram að söluaðili greiði kostnað ef greiðsluseðill er stofnaður og annan kostnað sem til fellur vegna innheimtukröfunnar. Þá er einnig áréttuð sú heimild Valitor að umbreyta fjárhæð kröfu/kostnaðar til innheimtu úr öðrum gjaldmiðli í íslenskar krónur. Umbreyting fjárhæða í íslenskar krónur miðast við gengisskráningu Seðlabanka Íslands.
 • Tími til að virkja aðgang að þjónustuvef er lengdur úr sjö í fjórtán daga.
 • Áréttað er að atvik sem upp koma í tengslum við starfsemi söluaðila geta leitt til endurgreiðsluáhættu fyrir Valitor sem heimilar Valitor að halda eftir ógreiddu og/eða væntanlegu uppgjöri til söluaðila.
 • Breytingar eru gerðar á skilmálunum vegna endurgreiðslna. Einungis er heimilt að endurgreiða í reiðufé ef ekki er hægt að endurgreiða korthafa með öðrum hætti (t.d. með endurgreiðslu í gegn um afgreiðslubúnað eða innlögn inn á bankareikning korthafa). Þá er áréttað að söluaðili skuli hafa til staðar gilda staðfestingu á öllum endurgreiðslum og afhenda Valitor slíkar staðfestingar ef óskað er eftir því. Söluaðili ber ábyrgð á því að kortagreiðslur og endurgreiðslur séu framkvæmdar á réttan hátt og því er áréttað í nýjum skilmálum að til ólögmætra færslna teljast líka endurgreiðslur sem eru inntar af hendi en eru ekki í samræmi við skilmála Valitor. Þá er einnig áréttað undir ábyrgðartakmörkun að ábyrgð Valitor nær ekki til þeirra tilvika þegar hætt er að nota tiltekinn tæknibúnað.
 • Í grein 24.3 er kveðið á um heimildir Valitor til að rifta samstarfssamningi við söluaðila. Á meðal heimilda sem koma þar fram er heimild Valitor til að rifta vegna þess að viðskiptasamband Valitor við söluaðila uppfyllir ekki áhættustefnu félagsins. Í nýjum skilmálum er áréttað að undir slíkt tilfelli getur m.a. legið mat Valitor sem framkvæmt er á grundvelli greinar 18.4.
 • Í nýjum skilmálum kemur fram að Valitor sé heimilt að fella samstarfssamning úr gildi ef kennitala söluaðila er afskráð. Þá er Valitor einnig heimilt að fella samning úr gildi ef engin velta hefur komið frá söluaðila innan sex mánaða frá stofndegi samnings.
 • Bætt er við orðalagi um að ef söluaðili hefur ekki skráð netfang í samstarfssamningi sé Valitor heimilt að tilkynna riftun á samningi með hefðbundnum hætti (t.d. bréfi á skráð lögheimili söluaðila).
 • Í skilmálum kemur fram að Valitor sé heimilt að fá þriðja aðila til að innheimta gjöld og kostnað vegna samningsins, m.a. með milliinnheimtu og löginnheimtu og greiðir söluaðili þá kostnað við það. Sé þriðji aðili fenginn til að innheimta kröfu gagnvart söluaðila skal söluaðili beina öllum fyrirspurnum og öðrum atriðum er varðar kröfuna til viðkomandi aðila en ekki til Valitor. Þá er áréttað að innheimtukostnaður og annar kostnaður sem fellur til eftir að innheimtukrafa hefur verið framseld þriðja aðila til innheimtu er ekki á ábyrgð Valitor.
 • Bætt er við ákvæði í nýja skilmála um samskipti á milli Valitor og söluaðila. Nánar til tekið að verði söluaðili fyrir tjóni vegna þess að tilkynningar milli Valitor og söluaðila misfarast, t.d. ef Valitor fær ekki tölvupóst af einhverjum ástæðum, bréfasendingar komast ekki til skila, ef upp koma tækniörðuleikar eða misskilningur vegna ógreinilegra fyrirmæla í síma, ber Valitor enga ábyrgð á því tjóni.
 • Í ákvæðum um netviðskipti er áréttað að Valitor sé heimilt að innheimta kostnað vegna bakfærslu færslna sem söluaðili hefur framkvæmt vegna fastra netgreiðslna án heimildar.
 • Færslur í boðgreiðslum skulu nú berast Valitor í síðasta lagi 20. hvers mánaðar (í stað 18 hvers mánaðar).
 • Í sérstökum skilmálum um leigu á afgreiðslubúnaði er áréttuð sú meginreglna að ákvæði þeirra gilda einnig um veflausnir að því leyti sem við á. Í sömu skilmálum kemur nú fram að leigugjald innheimtist óháð notkun á búnaðinum, þ.e. svo lengi sem samningur er í gildi. Einnig er áréttað að Valitor hefur heimild til þess að innheimta leigugjald þangað til búnaði er skilað, eða í tilviki veflausnar, leigutaki hefur tilkynnt að hann vilji segja upp samning við Valitor.

Ofangreind upptalning er ekki tæmandi og inniheldur einungis helstu breytingar skilmálanna að mati Valitor. Valitor hvetur því alla söluaðila til að lesa breyttu viðskiptaskilmálana vel yfir og kynna sér þá vandlega.

Viðskiptaskilmálar sem taka gildi 8. desember 2021 eru aðgengilegir hér