Valitor logo

Viðsnúningur á rekstri Valitor

Einfaldari rekstur býr til hagkvæmni – betri tímar framundan

Töluverður viðsnúningur varð á rekstri Valitor á síðasta ári en heildarafkoma félagsins batnaði um 8,5 milljarða á milli ára. Heildarafkoma félagsins á árinu 2020 var neikvæð um einn milljarð króna, samanborið við 9,5 milljarða árið 2019. Tap fyrir skatta og fjármagnsliði nam 1,4 milljarði króna, samanborið við 4,2 milljarða árið áður. Heildartekjur drógust saman um 12% á milli ára og námu um 14 milljörðum króna. Tekjur af færsluhirðingu jukust lítillega þrátt fyrir umtalsvert minni notkun erlendra korta hér á landi, en tekjur vegna kortaútgáfu lækkuðu enda nánast engin kortanotkun erlendis á árinu.

Rekstrarkostnaður Valitor nam um 5,9 milljörðum króna, samanborið við níu milljarða árið 2019. Rekja má lægri rekstrarkostnað til einföldunar á rekstri félagsins, aukinnar skilvirkni, samþættingu grunnkerfa, hagræðingu í húsnæðismálum og annarrar hagræðingar á rekstri félagsins.

Eigið fé Valitor nam um 7,3 milljörðum króna í árslok 2020, samanborið við 4,8 milljarða árið áður, og jókst því um 2,5 milljarða króna á milli ára. Handbært fé í lok árs nam um 16,9 milljörðum króna. Vorið 2020 seldi Valitor starfsemi sína í Danmörku og hluta af starfsemi sinni í Bretlandi. Þær rekstrareiningar höfðu fram að því verulega neikvæð áhrif á bæði sjóðsstreymi og rekstrarafkomu félagsins.

Rekstraráætlun Valitor gerir ráð fyrir jákvæðri EBITDA á árinu 2021. Félagið stendur vel að vígi og að öllu óbreyttu munu þær áætlanir standast væntingar.

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor:

„Við tókumst á við áskoranir á árinu 2020 en höfum náð miklum árangri í því að bæta rekstur og afkomu félagsins. Kórónuveiru-faraldurinn hafði áhrif á starfsemi Valitor eins og aðra þætti samfélagsins. Aftur á móti höfum við náð mikilvægum áföngum í því að styrkja kjarnastarfsemi Valitor, einfalda rekstur og styrkja fjárhagsstöðu félagsins. Jafnframt höfum við unnið markvisst að því að auka skilvirkni og þjónustu með einföldun og úrbótum á vöruframboði þvert á markaði og stefnum að því að vaxa með samstarfsaðilum okkar. Viðskiptavinir Valitor á Íslandi sem og erlendis eru strax farnir að njóta þessa. Það eru áskoranir framundan en við vitum hvert við stefnum. Hjá Valitor starfar öflugt starfsfólk og við erum vel í stakk búin til að takast á við næstu verkefni.“