Valitor logo

Við erum hér til að styðja við söluaðila

Hjá Valitor er lögð áhersla á að þróa öruggar lausnir sem mæta kröfum viðskiptavina - ein þeirra er ValitorPay.

Sigurjón Ernir Kárason vöruþróunarstjóri. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Valitor kynnti nýja greiðslulausn í Fréttablaðinu fimmtudaginn 18. febrúar 2021.

alitor er þessa dagana að kynna fyrir hugbúnaðarhúsum og viðskiptavinum nýja greiðslulausn sem heitir ValitorPay. „Þessi lausn ber þau einkenni að hún er þróuð af forriturum fyrir forritara og er því einfaldari í innleiðingu og viðhaldi en eldri lausnir,“ segir Sigurjón Ernir Kárason, vöruþróunarstjóri Valitor.

Rótgróið, íslenskt félag

Valitor hefur frá 1983 verið íslenskur færsluhirðir og boðið söluaðilum upp á alhliða greiðsluþjónustu. Samhliða því að greiðslumiðlun, líkt og margt annað, hefur sífellt orðið stafrænni, þá hefur Valitor fært sig úr því að vera hefðbundið fjármálafyrirtæki yfir í hugbúnaðarhús og í dag starfa yfir 40 manns við vöruþróun fyrir íslenska markaðinn. Þannig getur Valitor stutt við stafræna vegferð sinna viðskiptavina.

Netverslun í örum vexti

Sigurjón segir að vægi netverslunar hafi sífellt verið að aukast á undanförnum árum. Valitor hafi í gegnum tíðina boðið upp á fjölbreytta vefþjónustu til að sinna mismunandi þörfum á markaðinum en það stefndi í að vöruframboð félagsins bæri þess merki að svara kalli liðinnar tíðar. Í ljósi þess að heimsfaraldurinn kallaði á hraðari þróun á netverslun var ákveðið að hanna nýja lausn frá grunni sem myndi gera söluaðilum enn auðveldara að taka á móti greiðslum á vefnum eða í gegnum smáforrit (e. apps) og svara með því ítrustu kröfum markaðarins. Samhliða því að taka í notkun nýju lausnirnar mun eldri og frumstæðari lausnum verða lokað.

Útkoman er heildarlausnin ValitorPay sem auk þess að vera einfaldari í innleiðingu og viðhaldi en eldri lausnir, styður einnig ýmsar nýjungar á borð við myntval (e. DCC) í netgreiðslum, hlutaheimild sem gerir vefverslunum kleift að taka frá heimild fyrir pöntun viðskiptavinar en sækja svo heimild fyrir endanlegri upphæð. Þetta gerir til dæmis dagvöruverslunum mögulegt að rukka nákvæm gildi fyrir ferskvöru á borð við fisk, kjöt og grænmeti í stað miðgilda sem notuð eru í dag. Enn fremur dregur þetta úr endurgreiðslum þegar vörur eru ekki til á lager en hafa verið seldar, en þeim fylgir bæði kostnaður og umstang/bið fyrir korthafann. Auk þess styður ValitorPay nýjar kröfur Evrópusambandsins um öryggi færslna (3D Secure 2.1) sem innleiddar voru í Evrópu í ársbyrjun.

„Valitor er einnig með breitt vöruframboð þegar kemur að „tilbúnum“ greiðslulausnum fyrir netviðskipti. Við bjóðum upp á hefðbundna Greiðslusíðu sem og nýtt „Checkout“-form sem einfalt er að innleiða og heldur korthafanum inni á vef söluaðila í gegnum allt ferlið, þökk sé einstakri hönnun. Það er svo sífellt vinsælla hjá söluaðilum, stórum sem smáum, að nota tilbúin vefverslunarkerfi á borð við Magento, Shopify eða WooCommerce og getur Valitor boðið lausnir sem tengjast þeim með nokkrum smellum,“ segir Sigurjón.

Sameiginleg markmið söluaðila og Valitor

„Stafræn vegferð fyrirtækja, stórra og smárra, er í fullum gangi og Valitor hefur einsett sér að styðja við söluaðila sína með lausnum og tengingum sem gera þeim auðveldara að eyða tíma sínum í aðra þætti rekstrarins. Þess vegna er Valitor með öflugan þjónustuvef sem býður upp á beinar bókhaldstengingar við stærstu bókhaldskerfi landsins, ásamt því að bjóða upp á nýja kynslóð posa, svokallaðra PAX Android-tækja, á markaðinum sem munu gerbreyta því hvernig við horfum á greiðslutæki með tilkomu lausna sem vinna beint á posanum í samstarfi við hugbúnaðarhús,“ segir Sigurjón og bætir við: „Vöruframboð Valitor hefur aldrei verið breiðara og við hlökkum til að styðja söluaðila, hugbúnaðarhús og þróunaraðila í að ná sem bestum árangri í sífellt breytilegu umhverfi.“