Valitor logo

Valitor hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar annað árið í röð

Harpa Vífilsdóttir, fjármálastjóri Valitor tók á móti viðurkenningunni úr höndum Elizu Reid.

Árið 2021 hlaut Valitor viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Viðurkenningin var veitt á stafrænu ráðstefnunni Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV þann 14. október sl. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar og veitti þrjátíu og átta fyrirtækjum, sjö sveitarfélögum og átta opinberum aðilum viðurkenningu úr hópi þeirra 152 þátttakenda sem undirritað höfðu viljayfirlýsingu og tekið þátt í könnun um aðgerðir til að efla jafnrétti í atvinnulífinu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið.

Viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar 2021

Skýr stefna í jafnréttismálum
Valitor hefur skýra jafnréttisstefnu sem hefur það að markmiði að tryggja starfsmönnum sanngjörn tækifæri innan fyrirtækisins. Valitor leitast einnig við að gefa starfsfólki sínu kost á sveigjanlegum vinnutíma og aðstöðu til fjarvinnu til að auðvelda samþættingu fjölskyldulífs og vinnu. Félagið hefur frá árinu 2019 starfrækt jafnlaunakerfi og fékk jafnlaunavottun og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið í apríl 2019. Áður hefur Valitor einnig hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2020.

Viðurkenning Jafnvægisvogarinnar 2021