Valitor logo

Valitor selur starfsemi sína í Danmörku

Valitor

Valitor hefur samið við Christian Rasmussen um sölu á starfsemi dótturfélags Valitor í Danmörku, Valitor A/S, áður AltaPay A/S. Christian var á sínum tíma einn af stofnendum greiðslumiðlunarfyrirtækisins AltaPay A/S sem Valitor keypti árið 2014 og var rekið undir merkjum Valitor frá janúar 2019. Christian stýrði alrásarþjónustu Valitor þar til hann hætti störfum hjá fyrirtækinu í lok árs 2018.

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor segir: “Í upphafi árs hófum við endurskipulagningu Valitor í því augnamiði að styrkja kjarnastarfsemina. Það er mér mikið ánægjuefni að nýjasti áfanginn í þeirri vinnu felur í sér að starfsemi okkar í Danmörku fær nýjan eiganda sem hefur sterk tengsl við alrásarþjónustu Valitor. Aðkoma Christian og þekking hans og ástríða fyrir starfseminni eru afar góð tíðindi fyrir bæði starfsfólk og viðskiptavini.”

Christian mun taka yfir öll viðskiptasambönd Valitor A/S og reka starfsemina undir merki AltaPay. Viðskiptavinir alrásarþjónustu Valitor eru staðsettir í Bretlandi og á Norðurlöndum, einkum í Danmörku. Mun engin röskun verða á þjónustu við viðskiptavini.

“Valitor og AltaPay hafa ætíð haft góðan samhljóm og lagt áherslu á tækni, einfaldleika og sérþekkingu sem eflir persónulega upplifun viðskiptavina”, segir Christian. “Við erum ennfremur ánægð með að Valitor mun áfram veita okkur þjónustu við færsluhirðingu og styðja þannig við vöxt viðskiptavina okkar á lykilmörkuðum.”

Söluverðið er trúnaðarmál. Valitor er eftir sem áður fjárhagslega öflugt fyrirtæki á sviði alþjóðlegrar greiðslumiðlunar. Fyrirtækið veitir þjónustu á sviði færsluhirðingar, kortaútgáfu og greiðslugátta beint til viðskiptavina sinna á Íslandi, Bretlandi og Írlandi, en einnig um gervalla Evrópu í samvinnu við samstarfsaðila.