Valitor logo

Skilmálar söluaðila hjá Valitor óbreyttir

Hvert mál skoðað sérstaklega

Vegna fjölda fyrirspurna um viðskiptaskilmála söluaðila í dag viljum við koma því á framfæri að þeir hafa ekki tekið neinum breytingum. Valitor hefur glímt við svipuð úrlausnarefni varðandi áhættustýringar gagnvart ferðaþjónustunni og aðrir færsluhirðar hér á landi og um allan heim reyndar. Við höfum kosið að vinna með þessum aðilum einstaklingsbundið og gætt meðalhófs í aðgerðum. Það hefur í lang flestum tilvikum gengið vel og ekki eru fyrirhugaðar neinar sértækar breytingar á skilmálum. Rétt er að taka fram að nær undantekningarlaust hefur ekki verið þörf á aðgerðum vegna kaupmanna í öðrum greinum en ferðaþjónustu.

Það er þó mikilægt að aðilar skilji hvar ábyrgðin liggur og séu sammála um hver áhættan er hverju sinni. Réttur korthafa til endurgreiðslu, hafi vara eða þjónusta verið greidd en ekki afhent, er mjög ríkur og í þeim tilvikum liggur endanlega ábyrgðin oftast hjá færsluhirði. Hafi Valitor gert þá sölu upp við kaupmenn þá er það sú áhætta sem að Valitor er að reyna að takmarka í samvinnu við kaupmenn í ferðaþjónustu.

Margir aðilar í ferðaþjónustu hafa verið að krefja korthafa um fyrirframgreiðslu að hluta eða heild af þjónustu sinni. Í því ástandi sem að við búum við í dag, þar sem að óvissa er mikil um hvort hægt er að nýta þjónustuna, er slíkt ekki skynsamlegt. Í sumum tilvikum hafa söluaðilar jafnvel verið með tilboð þar sem greiðsla korthafa er sögð óendurkræf. Afar strangar reglur gilda um slík tilboð og þurfa slíkir skilmálar að vera sýnilegir í kaupaferlinu. Við höfum séð að framsetning sumra kaupmanna á slíkum skilyrðum uppfyllir ekki skilyrði kortasamtakanna þannig að endurkröfuréttur korthafa er til staðar. Um slíkt getur skapast ágreiningur en reglur kortasamtakanna eru skýrar um hvernig framsetning á slíkum tilboðum eigi að vera.

Að þessu gefnu þá þurfa allir aðilar – hvort sem er færsluhirðar, ferðaþjónustuaðilar eða aðrir hagsmunaaðilar – að laga sig að breyttu landslagi. Valitor mun hér eftir sem hingað til reka virka áhættustýringu í samræmi við skilmála félagsins og kaupmenn hafa samþykkt.