Valitor logo

Valitor varar við svikum vegna rafmyntar og annara fjárfestingasjóða

Mikill vöxtur hefur verið í svokölluðum fjárfestingasvikum

Dæmi um síðu þar sem framfara fjárfestingasvik. Ljósmynd/Landsbankinn
Dæmi um síðu þar sem fram fara fjárfestingasvik. Ljósmynd/Landsbankinn

Mikil vöxtur hefur verið í svokölluðum fjárfestingasvikum þar sem einstaklingar eru blekktir til að fjárfesta í einhvers konar verðmætum svo sem rafmyntum og annars konar fjárfestingasjóðum (bitcoin, binary).

Það sem af er árinu 2019 hefur tíðni mála aukist um 77% frá fyrra ári og er þessi tegund svika orðin algengasta tilraun fjársvikara gagnvart einstaklingum hér á Íslandi.

Svikin eru það vel útfærð að jafnt reyndir sem óreyndir fjárfestar eiga erfitt með að átta sig á að eitthvað óvenjulegt sé á seiði fyrr en jafnvel vikum eða mánuðum eftir að svikin hefjast.

Þeir sem stunda fjárfestasvik nota ýmsar leiðir til að nálgast einstaklinga. Þeir auglýsa á netinu og á samskiptamiðlum, senda bréf, skilaboð og tölvupósta og fá fólk til þess að gefa upp símanúmer sem þeir geta hringt í. Þeir fullyrða að þeir séu með starfsleyfi í sínu heimalandi og þurfi ekki starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi. Svikarnir eru með gylliboð um tækifæri til þess að hagnast gríðarlega. Þeir eru lagnir í samskiptum og sölumennsku og eiga auðvelt með að fá fólk til að gera hluti sem það á ekki að gera.

Oftast er fyrirkomulagið á þá leið að fórnarlambið millifærir eða gefur leyfi fyrir reglulegum úttektum á greiðslukort til þess að leggja inn á erlenda fjárfestingasjóði. Viðkomandi fær aðgang að netbanka á vegum svikarana eða appi til að geta fylgst með fjárfestingunni og getur nálgast tölfræðilegar upplýsingar um ávöxtunina. Netsíður og öpp með yfirliti yfir fjárfestingar eru vel útfærð og sannfærandi. Svikarinn býður jafnvel fram aðstoð við að setja upp þennan hugbúnað og fær aðgang að tölvu viðkomandi. Dæmi eru um að svikararnir hafi öðlast nógu mikið traust til að fá aðgang að netbanka.

Í fyrstu er sýnt fram á mikinn gróða og síðan er haft samband við viðkomandi og hann hvattur til að halda áfram að fjárfesta. Þegar kemur að því að einstaklingurinn vill fá arðinn greiddan út færist svikarinn undan og setur jafnvel kröfur um að greitt verði meira til þess að ná fénu út. Lokað er fyrir aðgang að netbanka og appi og engin eða lítil svör fást þegar reynt er að hafa samband.

Í mörgum tilfellum er svikunum ekki lokið þegar fórnarlambið hefur áttað sig á því að um blekkingar er að ræða. Sömu aðilar hafa aftur samband undir öðrum formerkjum og bjóða upp á aðstoð við að ná peningunum til baka af „svikaranum“ og þiggja frekari greiðslur fyrir, sú aðstoð er önnur blekking til þess að ná frekari fjármunum af fórnarlambinu.

Það er mikilvægt að fólk gefi sér tíma til að kynna sér vel þá aðila sem bjóða slíka þjónustu. Oftar en ekki er hægt að komast að því að ekki sé allt með felldu ef fyrirtækið er „gúgglað“ á netinu, þar sem líklegt er að fleiri aðilar hafi lent í svikamyllunni.

Ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt þá eru miklar líkur á að svo sé.

 

Þessi frétt er m.a. byggð á upplýsingum sem Landsbankinn hefur safnað saman og birt um fjárfestingasvik og netöryggismál.

Hægt er að lesa sér nánar til um fjárfestingasvik:

https://umraedan.landsbankinn.is/umraedan/samfelagid/verum-vakandi/fjarfestasvik-eru-algengustu-netsvikin-herlendis-thad-sem-af-er-ari/

https://umraedan.landsbankinn.is/umraedan/samfelagid/verum-vakandi/utsmoginn-salfraedihernadur-i-netsvikum/

https://www.mbl.is/frettir/taekni/2019/10/01/throud_svik_sem_audvelt_er_ad_falla_fyrir/