Valitor logo

Valitor hlýtur jafnlaunavottun

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Stefán Ari Stefánsson, mannauðsstjóri Valitor, Kristjana Axelsdóttir, verkefnastjóri í innleiðingu jafnlaunakerfisins, Emil B. Karlsson, úttektarmaður frá Vottun hf., Erla Sylvía Guðjónsdóttir, mannauðssérfræðingur og Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Valitor hf. hefur hlotið jafnlaunavottun og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið. Vottunin staðfestir að Valitor uppfylli ÍST 85:2012 staðalinn sem kveður á um að viðmið launaákvarðana skulu vera fyrirfram ákveðin og feli hvorki í sér beina eða óbeina kynbundna mismunun, né ójöfnuð af öðru tagi. Jafnlaunastefna Valitor er í samræmi við 19. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Meginmarkmið jafnlaunavottunarinnar er að vinna gegn kynbundnum launamun og tryggja að starfsfólki, sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf, sé ekki mismunað í launum.

„Það er réttlætismál að konum og körlum séu greidd jafnhá laun fyrir jafnverðmæt störf. Þetta viðhorf er og hefur verið hluti af siðferðilegum viðmiðum Valitor. Við erum afar stolt af þessum áfanga og staðfestingu þess að fyrirtækið okkar uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins,” segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Hjá Valitor á Íslandi starfa um 240 starfsmenn, nánast jafnmargir karlar og konur. Jafnlaunakerfið og vottunin er okkur hvatning til að gera stöðugt betur í jafnréttismálum. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og Valitor mun leggja metnað í að þróa áfram jafnlaunakerfi sitt og endurskoða vinnubrögð varðandi launaákvarðanir reglulega.,“ segir Stefán Ari Stefánsson, mannauðsstjóri Valitor.

Valitor er ábyrgur þegn í íslensku samfélagi sem leitast við að taka þátt í uppbyggingu þess. Samfélagsleg ábyrgð Valitor liggur ekki síst í því að félagið ræki hlutverk sitt af kostgæfni, tryggi viðskiptavinum gæðaþjónustu, hugi að umhverfisvernd og skapi starfsmönnum sínum góð og sanngjörn starfsskilyrði.