Valitor logo

Tilkynning um uppfærða skilmála hjá Valitor

Valitor hf., kt. 500683-0589 („Valitor“) tilkynnir breytingu á almennum viðskiptaskilmálum söluaðila. Nýju skilmálarnir gilda frá 14. mars 2019.

Viðskiptaskilmálar Valitor voru teknir til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að gera skilmálana aðgengilegri og gagnsærri fyrir söluaðila og skýra frekar réttindi og skyldur aðila. Þá var leitast við að veita söluaðilum auknar leiðbeiningar um hvernig þeir geta framkvæmt öruggar færslur.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á viðskiptaskilmálunum . Einna helst má nefna eftirfarandi atriði:

  • Ákvæði varðandi framkvæmd færslna og tilfærslu ábyrgðar vegna þeirra hafa fram til þessa verið dreifð í skilmálunum. Í nýju skilmálunum hafa þessi ákvæði verið sameinuð í fyrstu greinum skilmálana, sbr. gr. 3-7, og fyrirmæli um framkvæmd einfölduð og skýrð frekar. Söluaðilar ættu því að eiga auðveldara með að framkvæma öruggar færslur sem leiða til flutnings ábyrgðar til Valitor.
  • Ákvæði er lúta að vörslu og öryggi upplýsinga sem og reglur er varða persónuvernd hafa verið uppfærðar til samræmis við auknar kröfur og breytingar á almennum lögum og reglum kortasamtakanna.
  • Kafli um þóknun og uppgjör við söluaðila hefur sætt endurskoðun og breytingum. Í eldri skilmálum höfðu gjaldtökuheimildir verið orðaðar með nokkuð almennum hætti. Í nýju skilmálunum er leitast við að auka gagnsæi með því að tilgreina með nákvæmari hætti hvaða gjöld og hvaða kostnaður kunni að falla til og hver beri ábyrgð á greiðslu slíks kostnaðar/gjalda. Þá eru heimildir Valitor til beitingu innheimtuaðferða skýrðar frekar.
  • Nýjum kafla um rétt til að halda eftir uppgjöri hefur verið bætt við í skilmálana. Um er að ræða úrræði sem gerir Valitor kleift að bregðast við hugsanlegum vanefndum söluaðila með öðrum hætti en áður hefur verið mögulegt. Í tilvikum þar sem riftunarheimildir voru áður eina úrræðið kann Valitor nú að hafa kost á að beita vægara úrræði.
  • Tiltekin ákvæði sem minna hefur reynt á, s.s. um notkun handþrykkivéla, hafa verið færð úr meginmáli almennra skilmála í sérstaka viðskiptaskilmála. Að sama skapi hafa önnur ákvæði sem reynir sífellt meira á, s.s. um þjónustuvef Valitor, verið færð úr sérstökum viðskiptaskilmálum í meginmál almennu skilmálanna. Ákvæði og kaflar um þjónustu sem hefur lagst af hafa verið fjarlægðir t.a.m. kaflar um félagagreiðslur og léttgreiðslur.

Ofangreind upptalning er ekki tæmandi og inniheldur einungis stærstu breytingar skilmálanna að mati Valitor. Valitor hvetur því alla söluaðila til að lesa breyttu viðskiptaskilmálana vel yfir og kynna sér þá vandlega.