Valitor logo

Tilkynning um breytingu á viðskiptaskilmálum söluaðila

Nýju skilmálarnir gilda frá 2. janúar 2020.

Valitor hf., kt. 500683-0589 („Valitor“) tilkynnir breytingu á almennum viðskiptaskilmálum söluaðila. Nýju skilmálarnir gilda frá 2. janúar 2020 og eru nú aðgengilegir á vefsíðu Valitor.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á viðskiptaskilmálunum. Einna helst má nefna eftirfarandi atriði:

  • Nokkum nýjum hugtökum/skammstöfunum hefur verið bætt í skilmálana og nú er eftirtalið skilgreint: færslugjald, PA DSS öryggisstaðall, dagsetning útgreiðslu, öryggistilmæli og ráðstafanir.
  • Ákvæði er lúta að vörslu og öryggi upplýsinga sem og reglur er varða persónuvernd hafa verið uppfærðar lítillega til að auka skýrleika og tryggja samræmi við viðeigandi lög, reglur og alþjóðlega öryggisstaðla.
  • Kafli um uppgjörstímabil kreditkorta hefur sætt endurskoðun og breytingum. Í eldri skilmálum var lagt til grundvallar að uppgjörstíðni væri mánaðarleg ef ekki væri samið um annað fyrirkomulag. Í nýju skilmálunum er hins vegar lagt til grundvallar að greiðslufyrirkomulagi skuli háttað þannig að uppgjörstíðni sé dagleg og að miðað skuli við að þrír virkir dagar líði frá því að uppgjör myndist hjá Valitor þar til greiðsla til söluaðila er innt af hendi. Aðilar geta þó samið um annað fyrirkomulag. Þá áskilur Valitor sér rétt til að gera einhliða breytingu á uppgjörstíðni og/eða dagsetningu útgreiðslu til söluaðila telji félagið fjárhags- og rekstrarstöðu söluaðila ófullnægjandi. Ekki verða gerðar breytingar á núgildandi samstarfssamningum nema að undangenginni frekari tilkynningu frá Valitor.
  • Nú er kveðið á um að ef endurkrafa berst á greiðslukort sem er í annarri mynt en samstarfssamningur söluaðila þá verði endurkröfufærslan umreiknuð skv. viðmiðunargengi á skráningardegi endurkröfufærslunnar.
  • Valitor fellir úr gildi takmörkun í formi hámarksþóknunar á þjónustugjöld Valitor.
  • Valitor áskilur sér nú rétt til að halda eftir uppgjöri ef söluaðili bregst ekki við kröfu Valitor um framlagningu tiltekinna trygginga sem Valitor telur viðeigandi fyrir efndum samningsins.
  • Þá áskilur Valitor sér nú rétt til að falla frá samstarfssamningi við söluaðila sem hefur ekki móttekið greiðslulausn eða er ekki byrjaður að taka á móti færslum á grundvelli samstarfssamnings.
  • Kafli í sérstökum skilmálum um handvirka skráningu hefur verið fjarlægður þar sem þjónustan hefur lagst af.

Ofangreind upptalning er ekki tæmandi og inniheldur einungis stærstu breytingar skilmálanna að mati Valitor. Valitor hvetur því alla söluaðila til að lesa breyttu viðskiptaskilmálana vel yfir og kynna sér þá vandlega.

Jafnframt tilkynnir Valitor breytingu á opnunartíma frá og með 2. janúar 2020. Almennur afgreiðslutími verður 9.00 – 16.00 alla virka daga. Ef upp koma neyðartilfelli með posabúnað frá Valitor þá er hægt að hafa samband við Posaleigu Valitor til kl. 24.00 alla daga.