Valitor logo

Breytingar hjá Valitor til að snúa við taprekstri

Valitor hefur ákveðið að ráðast í endurskipulagningu á félaginu til að styrkja kjarnastarfsemi þess og snúa við taprekstri. Breytingarnar munu ná til allra starfsstöðva fyrirtækisins og er kostnaður við þær áætlaður um 600 milljónir króna. Nánar verður greint frá inntaki breytinganna innan tveggja vikna. Breytingarnar miða að því að breyta afkomu félagsins úr tapi yfir í rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði (e. EBITDA).

Fjárfestingar Valitor í alþjóðlegri starfsemi hafa verið umtalsverðar á undanförnum árum. Þessar fjárfestingar hafa skilað tekjuvexti, en sala á alrásarlausnum (e. omni-channel solutions), vörulínu fyrir evrópsk stórfyrirtæki, hefur ekki staðið undir væntingum. Þar munar mest um 6 milljarða króna fjárfestingu í alrásarlausnum á tímabilinu frá árinu 2014, en bókfærð óefnisleg eign af þessum fjárfestingum nemur nú um 4,5 milljörðum króna. Hins vegar nema ætlaðar tekjur af lausninni eingöngu um 1,1 milljarði króna árið 2019. Áætlað er að draga verulega úr áframhaldandi fjárfestingu á þessu sviði.

Með framangreindum skipulagsbreytingum mun draga verulega úr fjárfestingarþörf og rekstrarkostnaði sem aftur hefur jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Valitor verður eftir sem áður fjárhagslega sterkt, alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem býður fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og útgáfu.