Valitor logo

Armbönd með greiðslulausn frá Valitor

Valitor mun innleiða PAX greiðslulausnina á Íslandi á næstunni

Valitor kynnti á dögunum nýja greiðslulausn í samstarfi við danska hugbúnaðarfyrirtækið OnlinePos á Hróarskeldu hátíðinni í Danmörku. Lausnin er nýstárleg að því leyti að OnlinePos hefur þróað app sem nýtist með PAX A920, nýrri tegund posa eða greiðslulausnar, sem Valitor er að setja á markað hérlendis og erlendis. Lausnin felst í því að tónleikagestir fá aðgangsarmbönd, sem innihalda NFC örgjörva og nýtast þar með einnig sem snertilaus greiðslumiðill. Appið, sem þróað var sérstaklega fyrir Hróarskeldu hátíðina, er aðgengilegt í PAX greiðslulausninni, ásamt því að lausnin tekur einnig við hefðbundnum kortagreiðslum.

Á þessu ári vildu forsvarsmenn Hróarskeldu hátíðarinnar skapa enn betri upplifun fyrir gesti sína m.a. með því einfalda greiðsluferli á svæðinu. Valitor vann í samvinnu við hátíðina og OnlinePOS að innleiðingu PAX greiðslulausnar sem gerir gestum, eins og áður er sagt, kleift að greiða með armböndunum. Alls eru 115 PAX snjalltæki frá Valitor á svæðinu þar sem tekið er við greiðslum. Gestir geta tengt greiðslukortin sín við armbandið og fylgst með notkun í sérstöku appi í símanum sínum.  Hróarskeldu hátíðin er með stærstu viðburðum í Danmörku þar sem búast má við um 130.000 gestum. Hátíðin stendur yfir frá 29. júní til 6. júlí.

„Þessi PAX greiðslulausn sem Valitor er að innleiða mun á næstu misserum taka við af gömlu posunum sem við þekkjum og hafa þjónað greiðslumiðlun í meira en 25 ár. PAX tækið er með Android stýrikerfi, sem býður upp á allt aðra nálgun í greiðslumiðlun. Hún gerir því Valitor kleift að taka upp samstarf við fjártæknifyrirtæki, hugbúnaðarhús og aðra aðila sem eru að vinna að nýjum greiðslumiðlum, afgreiðsluhugbúnaði, vildarkerfum eða hvaða hugbúnaði sem er. Með því að færa þær lausnir í app og samþætta greiðsluvirkni PAX tækjanna opnast nýir möguleikar fyrir kaupmenn í sölu, þjónustu viðskiptavina og móttöku nýrra greiðslumiðla, jafnt sem greiðslukorta,“ segir Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Valitor á Íslandi.

Nú þegar eru nokkrir kaupmenn á Íslandi komnir með lausnina til reynslu. „Prófanir hafa gengið vel. Við erum að þróa tengingar PAX tækjanna við helstu kassakerfi og leggja grunninn að skjölun sem einfaldar tengingu smáforrita eða App-a við greiðslulausnina. Sú vinna fer fram samhliða á öllum mörkuðum eða þar sem að Valitor mun innleiða greiðslulausnina,“ segir Pétur.