Valitor logo

HM sveiflar landanum!!

HM

Áhugi landsmanna á HM í knattspyrnu er með ólíkindum og þjóðin stendur sem einn maður að baki strákunum okkar. Fögnuðurinn var enda mikill þegar íslenska landsliðið náði jafntefli við Messi og félaga síðastliðinn laugardag. Skemmtilegt er að skoða hvernig kortanotkun landsmanna á leikdeginum speglar þetta stóra áhugamál.

Á meðfylgjandi línuriti frá Valitor sést að við erum aðeins kaupglaðari en ella fyrri hluta laugardagsins. Væntanlega verða þá margir sér úti um aðföng fyrir fótboltateiti dagsins. Upp úr kl. 10.00 fer kortanotkun á flug og helst mikil fram til um kl. 12.45. Þegar leikurinn hefst kl. 13.00 hríðfalla viðskiptin hins vegar langt niður fyrir meðaltal en þá væri notkunin í toppi á venjulegum laugardegi. Í hálfleik, kl. 13.50, má sjá nokkurn kipp upp aftur en notkunin er svo í miklu lágmarki milli kl. 14.00 og 15.30 þegar landsmenn fagna sögufrægu jafntefli. Það er ekki fyrr en um kl. 17.00 sem verslunin er komin á venjulegt ról á ný.

Fróðlegt verður að sjá hvort sveiflan verður jafnvel enn þá stærri í dag þegar við mætum Nígeríu eða á þriðjudaginn þegar við etjum kappi við Króatíu en þá ræðst endanlega hvort íslenska liðið kemst áfram í 16 liða úrslit.