Valitor logo

Valitor varar við nýjum svikapóstum!

Valitor varar við nýjum svikapóstum sem sendir hafa verið í nafni Netflix til almennings, nú síðast í dag. Efni póstanna er fölsk tilkynning um að fyrirtækið sé í vandræðum með innheimtuupplýsingar fyrir viðkomandi og að hún/hann þurfi að uppfæra kortaupplýsingar sínar. Þrjótarnir senda tölvupóst á fólk, hvort sem það er með Netflix áskrift eða ekki. Svikaupplýsingarnar eru settar fram í þremur skrefum.

Skref 1 er tölvupósturinn sjálfur en skref 2 og 3 eru síðurnar hjá “Netflix” (sem er reyndar frá bizalmo.se ef glöggt er að gáð). Sjá skjáskot í viðhengi af því hvernig þetta birtist viðtakendum svikapóstsins. Einnig virðist vera í gangi svikapóstur þar sem látið er líta út fyrir að sent sé í nafni Símans. Fólki er eindregið ráðlagt að opna póstinn ekki, smella ekki á hlekkinn sem fylgir með og gefa ekki undir neinum kringumstæðum upp kortaupplýsingar. Best er að eyða póstinum strax.Hafi fólk brugðist við slíkum pósti er brýnt að hafa samband við þjónustuver Valitor.

Svikapóstur.
Svikapóstur.
Svikapóstur.

Valitor biður aldrei um kortaupplýsingar í tölvupósti!
Vert er að taka fram að Valitor hefur ekki orðið fyrir tölvuárás heldur er um að ræða svikapósta til almennings.

Nokkur heilræði  til að forðast netsvik:

  • Skoðaðu tölvupóstinn vandlega. Ekki gera ráð fyrir að tölvupóstur sé ósvikinn þótt þú kannist við sendandann. Sumir netsvikapóstar eru auðþekkjanlegir en algengara er að netþrjótar noti haglega samansett skilaboð þar sem notast er við upplýsingar um einstaklinga og fyrirtæki sem eru aðgengilegar  á netinu í því markmiði að líkja eftir ósviknum tölvupósti.
  • Gættu þín sérstaklega á óvæntum tölvupósti þar sem farið er fram á persónulegar upplýsingar eða reikningsupplýsingar eða þú ert beðin(n) um að opna undarleg viðhengi eða senda peninga, jafnvel þótt pósturinn virðist vera frá manneskju og/eða netfangi sem þú kannast við.
  • Leitaðu upprunans ef þú ert í vafa. Ef þú færð grunsamlegan tölvupóst skaltu ekki smella á tengla eða opna viðhengi. Hringdu í sendandann eða farðu á opinbera vefsíðu viðkomandi til að ganga úr skugga um að pósturinn sé ósvikinn.
  • Verified By Visa er auka öryggisskref sem notast er við í netviðskiptum. Það virkar þannig að korthafi fær einskiptis leyninúmer sent sem SMS, í farsíma sinn, sem notað er til að staðfesta netgreiðsluna. Við hvetjum korthafa eindregið til að skoða vel skilaboðin sem berast vegna þess að í þeim kemur fram nafn söluaðila og upphæð sem verið er að versla fyrir. Ekki er ráðlagt að gefa upp lykilorðið nema korthafi kannist við að vera að versla við viðkomandi söluaðila og fyrir þá upphæð sem þar kemur fram.