Valitor logo

Valitor innleiðir greiðslumáta framtíðarinnar

Valitor gegndi lykilhlutverki í að koma Apple Pay til Íslands og gerir Landsbankanum og Arion Banka kleift að bjóða upp á þessa lausn til sinna viðskiptavina. Landsbankinn og Arion Banki auglýstu á dögunum að nú stæði viðskiptavinum þeirra til boða að tengja Visa greiðslukort sín við Apple Pay, greiðslulausn bandaríska tæknirisans Apple.

Aukið öryggi

Valitor innleiddi á síðasta ári þjónustu frá Visa sem byggir á sýndarnúmeratækni sem eykur öryggi í kortaviðskiptum. Sýndarnúmer kemur í stað kortanúmers og kemur í veg fyrir að raunverulega kortanúmerið sé notað við greiðslu fyrir vörur og þjónustu. Einnig kemur sýndarnúmer í veg fyrir að  kortanúmer séu vistuð á snjalltækjum viðskiptavina. Sýndarnúmerið hefur ekkert gildi eitt og sér og er því verðlaust sé því stolið. Innleiðing á þessari tækni gerir Valitor kleift að vera í forystu í breyttum greiðsluheimi.

Þjónustan hefur verið í notkun frá því um mitt síðasta ár þegar Landsbankinn varð fyrsti bankinn á Íslandi til að bjóða upp á  greiðslulausn með snjalltæki sem virkar í posum (NFC þráðlaus samskiptatækni). Bankinn gaf út Kortaapp sitt sem er Android greiðslulausn og var það verkefni unnið í samvinnu við Valitor.

Hvernig virkja viðskiptavinir kortin sín í Apple Pay?

Viðskiptavinir Arion Banka og Landsbankans geta annaðhvort virkjað greiðslukortin sín í gegnum bankaöppin eða með því að bæta því beint við  Apple Pay veskið á símanum. Báðar leiðir eru fljótlegar og þægilegar. Ef farið er í gegnum bankaapp er ekki krafist frekari auðkenningar fyrir viðskiptavini, þar sem hann hefur nú þegar auðkennt sig inn í bankaappið. Ef korti er bætt beint inn í Apple Pay veskið þá þarf notandi að auðkenna sig með staðfestingarkóða sem sendur er í gegnum textaskilaboð eða tölvupóst. Visa kort, bæði debet og kredit eru aðgengileg í lausnina. Viðskiptakort  sjást ekki í bankaöppunum en hægt er að bæta þeim við með því að fara beint í gegnum Apple veskið. Innkaupakort og gjafakort eru ekki aðgengileg í Apple Pay og er það samkvæmt reglum Visa.

Hvar er hægt að nota Apple Pay?

Hægt er að nota Apple Pay í öllum posum sem bjóða upp á snertilausar greiðslur  en einnig er hægt að nota greiðslulausnina til að greiða á netinu og í öppum. Apple Pay er aðgengilegt fyrir flestar gerðir Apple snjalltækja s.s. iPhone, iPad, Apple úr og MacBook Pro (með Touch ID virkni). Allar færslur með Apple Pay eru auðkenndar með fingrafari, andlitsskanna eða lykilorði. Þegar greitt er í posum er nóg að bera tækið upp að posanum, ekki er þörf á því að opna tækið fyrirfram.

Örugg greiðsluleið

Apple Pay er öruggara en greiða með korti. Sýndarnúmer kemur í stað kortanúmers og vistast kortanúmer viðskiptavina hvorki í snjalltækið né á netþjóna Apple og er þ.a.l. aldrei notað við greiðslur. Allar greiðslur eru auðkenndar með fingrafari, andlitsskanna eða lykilorði og skiptir ekki máli hvort um lága eða háa upphæð er að ræða. Einnig er gefið er út sérstakt sýndarnúmer fyrir hvert tæki og er ekki hægt að nota sýndarnúmerið til að greiða nema með því tæki sem sýndarnúmerið er gefið út á.

Ef notandi týnir símanum sínum er hægt að loka fyrir greiðslur úr honum  með auðveldum hætti  með öðru snjalltæki t.d. úri eða iPad sem er tengt en kortið mun virka áfram. Sama ef notandi týnir kortinu sínu getur hann ennþá nýtt sér snjalltækið sitt til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver útgáfubankans og láta frysta eða fjarlægja kortið úr símanum.

Innleiðing Apple Pay á Íslandi

Ferlið byrjaði í upphafi síðasta árs með samskiptum við Visa og Apple en stjórnun verkefnisins var í höndum Valitor. Vinnan við innleiðingu hófst síðasta haust og tók þá við langt og strangt, en skemmtilegt ferli. Apple setur miklar tæknikröfur og gerir mikið út á góða notendaupplifun. Fara þurfti  í gegnum strangt og umfangsmikið vottunarferli áður en varan var  sett í loftið. Allt hafðist  þetta með góðri samvinnu sem hefur  einkennt þetta verkefni.

Spenningurinn náði hámarki þegar  við fórum í loftið 8.maí kl 07.00 í góðri samvinnu með Landsbankanum og Arion Banka, Visa og Apple. Viðtökur korthafa voru frá upphafi  framar væntingum og eru Visa og Apple hæst ánægð hvernig til tókst með innleiðinguna. Við leyfðum Apple að fylgjast með fréttaflutningi og markaðssetningu á opnunardeginum sem þeim fannst mjög áhugavert og skemmtilegt. Rúmri viku síðar höfðu höfðu um 6% þjóðarinnar tengt kortin sín við Apple Pay sem að er langt umfram áætlanir.

Snjalltæki eru að verða greiðslumiðill framtíðarinnar og hefur Valitor tekið forystu í breyttum greiðsluheimi sem rímar vel við markmið fyrirtækisins. Innleiðing Apple Pay á Íslandi er byrjunin og verður gaman að sjá hvað fylgir í framhaldinu.