Valitor logo

Meira um Apple Pay

Apple Pay

Apple kynnti Apple Pay árið 2014 sem greiðslulausn með snertilausum greiðslum fyrir flest Apple tæki. Í dag geta eigendur iPhone, iPad, Apple watch og MacBook Pro með snertivirkni greitt með áðurnefndum snjalltækjum. Áður en greiðslur með Apple Pay geta farið fram þarf að sannreyna viðskiptin og er það er gert með PIN númeri, fingrafari eða andlitsskanna (e. FaceID). Með því að sannreyna viðskiptin er verið að tryggja öryggi notenda þegar greitt er með snjalltækjum.

Uppsetning á Apple Pay

Til að setja upp Apple Pay þarf að ýta á + í Veskinu (e. Wallet) sem er kortaappið í símanum og nota skanna til að skanna kortið (eða slá inn kortaupplýsingar handvirkt). Í sumum tilfellum gæti þurft að slá inn kóða til að tryggja öryggi. Þegar þessu ferli er lokið er kortið komið í símann og síminn orðinn að greiðslukorti.

Einnig er hægt að bæta kortum í Veskið í gegnum bankaöpp bankanna. Ef korthafi er þegar með veskið uppsett á iPhone eða iPad þá getur hann einfaldlega bætt sama kortinu við í Apple úrið sitt. Eingöngu þarf að opna veskið á tækinu sem er tengt við Apple úrið og bæta kortunum þar við. Það þarf að slá inn öryggisnúmer kortsins og ljúka sannprófunarskrefum sem bankinn krefst og þá er Apple úrið tilbúið til notkunar.

Hvernig á að greiða með Apple Pay?

Til að framkvæma snertilausa greiðslu með Apple Pay þarf að halda iPhone nálægt posa og staðfesta greiðslu með fingrafari, andlitsauðkenni eða PIN númeri. Til að greiða með Apple úri tvísmella notendur á takka á hliðinni og halda úrinu til móts við posann.

Get ég fengið endurgreitt inn á Apple Pay?

Apple Pay virkar eins í báðar áttir hvort sem verið er að greiða eða að fá endurgreitt, rétt eins og ef greitt er með sjálfu kortinu. Þegar greiðsla fer í gegn kemur númerið fram á slippanum úr posa frá söluaðilanum sem samsvarar síðustu fjórum tölum sem birtast undir númeri Apple tækisins (e. Device account number) í Veskinu (e. Wallet). Til að viðkomandi einstaklingur geti auðkennt sig vegna endurgreiðslunnar er hægt að sýna númerið á Apple tækinu því til staðfestingar að sami eigandi er að tækinu sem greiddi upphaflega fyrir vöruna. Því geta söluaðilar endurgreitt inn á Apple Pay í gegnum snertilausar greiðslur.