Valitor logo

Kapphlaupið í greiðslulausnum er hafið

Lengi hefur legið í loftinu að greiðslur á snjallsímum og tengdum lausnum yrðu að veruleika. Markmið þess er fyrst og fremst að uppfylla kröfur og væntingar neytenda um að geta sinnt öllum helstu daglegu viðskiptum með símum og tengdum lausnum sem notendur bera á sér flestar stundir dagsins.

Valitor er framsækið hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtæki sem leggur mikinn metnað í hugbúnaðarþróun greiðslulausna sem þróaðar eru og hannaðar af starfsmönnum fyrirtækisins.

Snjallar greiðslulausnir

Aukning í netviðskiptum hefur verið stöðug síðastliðin ár eða að jafnaði um 10% á ári hverju. Segja má að með greiðslum á netinu hafi fyrsta skrefið verið tekið í áttina að greiðslulausnum framtíðarinnar. Snertilaus viðskipti ruddu sömuleiðis brautina fyrir nýjar greiðslulausnir og hefur Valitor nú þegar stigið sín fyrstu skref í þá átt og leitt þá  þróun hér á landi. Síminn og tengdar lausnir eru það sem koma skal og hið hefðbundna veski verður að öllum líkindum á endanum óþarft.

Í nýrri grein frá visa.com er farið í saumana á auknu mikilvægi snjallgreiðslna fyrir samfélagið. Í nýlegri rannsókn sem gerð var innan fjármálageirans í Englandi kom fram að 41% fullorðinna nýta sér bankaþjónustu í gegnum síma og voru 84% þeirra sannfærðir um að það létti þeim lífið. Greininguna má nálgast á heimasíðu visa.com í gegnum eftirfarandi slóð: https://vision.visaeurope.com/blogs/the-race-to-manage-your-money

Gervigreind og fjártækni byltingin

Í hinu dýnamíska umhverfi fjártæknifyrirtækja hafa komið fram margar spennandi nýjungar á undanförnum árum, nýjungar sem munu umbylta núverandi fyrirkomulagi og auka hraða og árangur í þróun greiðslulausna. Gervigreind er mikilvægur þáttur í þeirri þróun sem mun nýtast bæði við að skapa og þróa lausnir til að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við að ná markmiðum sínum og um leið opna fyrir nýjar lausnir og tækifæri.

Seðlar og mynt á undanhaldi

Ísland hefur sem fyrr verið leiðandi í notkun greiðslukorta og er eins og önnur lönd að sigla inn í seðlalaust samfélag og verslun almennt að taka upp snjallar lausnir.  Lausnir sem byggja á „þarfasta þjóninum“, snjallsímanum,  sem smátt og smátt mun taka yfir notkun plastkortanna.