Um Valitor

Greiðslukort gegna mikilvægu hlutverki í nútímaviðskiptum sem tæki til að færa verðmæti milli manna. Á þessu sviði starfar Valitor en meginhlutverk fyrirtækisins er að gera viðskipti einföld, fljótvirk og örugg.

Fyrirtækið er byggt á grunni starfsemi VISA Íslands sem stofnað var árið 1983 af fimm bönkum og þrettán sparisjóðum. Frá árinu 2007 hefur fyrirtækið verið rekið undir heitinu Valitor hf. Starfsemin fer fram að Dalshrauni 3, 220 Hafnarfirði en þar starfa nú um 185 manns.

Færslukerfi Valitor tengist alþjóðlegum greiðslumiðlunarkerfum VISA og MasterCard og tengir þannig saman söluaðila, korthafa og banka um allan heim. Valitor kappkostar að veita söluaðilum, bönkum, sparisjóðum og korthöfum á ferð um heiminn örugga, skjóta og þægilega þjónustu.

Starfsemi Valitor er skipt í þrjú afkomusvið: Fyrirtækjasvið, Kortaútgáfusvið og Alþjóðasvið. Stoðsvið eru fjögur: Fjármál, Stjórnun og mannauður, Vöruþróun og nýsköpun og Þjónusta og rekstur.

Fyrirtækjasvið

Fjöldamörg íslensk fyrirtæki og lögaðilar eru í greiðslukortaviðskiptum við Valitor sem sér um færsluhirðingu. Færsluhirðing felst í því að miðla færslum á milli korthafa og söluaðila. Tilhögunin er með þeim hætti að Valitor veitir söluaðilum heimildaþjónustu, annast vinnslu á færslum, greiðir þær út til söluaðila á uppgjörsdegi.

Kortaútgáfusvið

Kortaútgáfusvið Valitor annast vinnslu og útgáfu greiðslukorta til allra helstu banka og sparisjóða. Margvísleg þjónusta er veitt ásamt starfrækslu þjónustuvers sem sér korthöfum m.a. fyrir neyðarþjónustu allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Alþjóðasvið

Alþjóðasvið þjónustar erlenda kaupmenn í færsluhirðingu. Markmið Alþjóðasviðs er að sækja fram á erlendum mörkuðum og efla þjónustu fyrirtækisins á alþjóðlegan mælikvarða, þannig að alþjóðaviðskipti verði á næstu árum einn af hornsteinum í starfsemi fyrirtækisins.

Lengst af máttu kaupmenn aðeins skipta við færsluhirða í því landi sem þeir voru skráðir. Fljótlega eftir að færi gafst á að veita söluaðilum þjónustu hvar sem var í Evrópu, var sótt um heimild til þess að stunda alþjóðaviðskipti og var leyfi til alþjóðaviðskipta (Cross Border) gefið út á árinu 2002. Fram að þessu hafa aðeins netkaupmenn verið í viðskiptum við fyrirtækið en með nýju kerfi, sem hannað hefur verið innan Valitor, hafa opnast möguleikar á að þjónusta einnig söluaðila í almennum viðskiptum. Stöðugur vöxtur hefur verið í alþjóðaviðskiptum fyrirtækisins að undanförnu og framundan eru fjölþætt og spennandi tækifæri til að gera enn betur.

Til þess að kynna sér Alþjóðalausnir nánar þá bendum við á www.valitor.com